Authors: Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson
Nú á dögum fer frekar lítið fyrir náttúrulegum íslenskum skógum og heldur eru þeir snauðir af tegundum, enda bera þeir þess greinileg merki að vaxa á mörkum kuldabeltisins og tempraða beltisins. Einu tegundirnar sem voru hér þegar land byggðist og mynda eiginleg tré eru birki (Betula pubescens Ehrh.) og reyniviður (Sorbus aucuparia L.). Plöntu leifar úr fornum setlögum landsins sýna okkur þó að á fyrri jarðsögutímum var hér oft og einatt mun lífvænlegra fyrir trjágróður og þá döfnuðu hér teg undaríkir, hávaxnir og fjölbreyttir skógar í töluvert hlýju og röku loftslagi. Í þessari grein verður fjallað um nýjustu rannsóknir á gróðurfarssögu landsins eins og unnt er að rekja hana í íslenskum jarðlögum eldri en 6 milljón ára, en þau eru frá tertíertímabili. Getið verður helstu fundarstaða plöntusteingervinga frá þessum tíma og þeirra tegunda sem þar finnast, en einnig skyldra núlifandi tegunda. Þá verður fjallað almennt um rannsóknir á gróðurfélögum í íslenskum jarðlögum, ný gögn og rannsóknaraðferðir.