Authors: Friðgeir Grímsson, Leifur A. Símonarson, Thomas Denk
Í greininni er lýst eins nákvæmlega og unnt er plöntusamfélögum úr elstu setlagasyrpum á Íslandi, en þær eru taldar 15 og 13,5 milljón ára. Allmargar plöntutegundanna sem hér verður fjallað um hafa ekki verið greindar áður úr íslenskum jarðlögum og sagt er frá nýrri tegund af linditré sem nýlega var nafngreind og fékk latneska nafnið Tilia selardalense, en við höfum kosið að nefna arnarlind á íslensku. Þegar bornir eru saman 15 milljón ára gamlir plöntusteingervingar frá Selárdal í Arnarfirði og Botni í Súgandafirði kemur í ljós að á þessum tíma þrifust hér mismunandi gerðir af plöntusamfélögum og geta þau gefið okkur töluverðar upplýsingar um ýmsa umhverfisþætti sem hér voru ríkjandi. Plöntuleifarnar í Selárdal og setlögin sem þær eru varðveittar í bera vott um frekar orkuríkt hálendissvæði markað af eldvirkni, en plöntuleifarnar og setlögin í Botni endurspegla hins vegar plöntusamfélag á láglendi.